4.2.13

Sjálfbær þróun gegn kapítalisma

(Birtist á Smugunni 2. febrúar 2013)

Kapítalismi er úrelt hugmyndakerfi sem hefur enga möguleika til að takast á við vanda nútímans. Kapítalisminn er afleiðing iðnbyltingarinnar þar sem litið var á fólk sem einingar í framleiðsluvélinni. Hegðun þess var mótuð til að auka framleiðni og peningar voru mælikvarðinn á framfarir í heiminum. Umhverfið var hráefni í framleiðsluna og til hennar var sótt það afl sem ekki var hægt að fá út úr fólkinu sjálfu. Allt fyrir skammtímagróða og hagnað eigendanna.

Í nútímanum eru mörg vandamál sem krefjast þess að boðið upp á víðara sjónarhorn í stjórnmálum en það sem kapítalistar bjóða upp á. Vaxandi fátækt í heiminum, aukin misskipting, arðrán auðlinda og mengun eru verkefni sem krefjast þess að horft sé til lengri tíma og réttlætið nái til fleiri en einstaklinga í forréttindahópum. Í yfirgangi forréttindastéttanna hefur tæknin gert það að verkum að maðurinn er orðinn meiri áhrifavaldur á umhverfið, ekki aðeins með mengun lofts og vatns, heldur með manngerðum jarðskjálftum og breytingum á veðurfari um allan heim.

Gegn kapítalisma stefnir VG sjálfbærri þróun. Sjálfbær þróun er ekki aðeins umhverfisstefna heldur  djúpstæð siðferðisleg afstaða sem snertir allt samfélagið. Sjálfbær þróun byggir á því að velferð samfélaga sé háð því að íbúar þroski siðferði sitt og sameiginlega sýn þannig að hún nái ekki aðeins til eigin hagsmuna heldur sjái íbúar líf sitt í víðara samhengi. Fullþroska siðgæðisvera er ekki einungis umhugað um eigin tegund og afkvæmi á meðan hún lifir, heldur vill hún að aðrar lífverur geti búið um ókomna tíð í heilbrigðu og náttúrulegu umhverfi.

Sjálfbær þróun býður okkur nýja möguleika og ný vinnubrögð. Sjálfbær þróun er siðferðislegur rammi sem virðir fjölbreytni og leitar nýrra hugmynda til að verja hagsmuni íbúa, umhverfis og samfélags - í nútíð, fortíð og framtíð.

7.1.13

Mútubrigsl forseta bæjarstjórnar í Vogum

(Birtist í VF í janúar 2012)

Fyrir rúmum mánuði var afstöðu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Voga breytt frá því að hafna loftlínum um land sveitarfélagsins í að heimila línulagnir. Ég sem forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi greiddi atkvæði gegn stefnubreytingunni. Í útvarpsviðtali skömmu síðar var ég spurð hvers vegna tveir bæjarfulltrúar meirihlutans hefðu skipt um skoðun, hvort mútur hefðu verið boðnar. Ég svaraði því að í okkar hópi hefði verið rætt um mútur eða mótvægisaðgerðir og fyrir því hefði ég heimildir. Landsnet hefði þó hafnað því að hægt væri að kalla greiðslurnar mútur.

Minnihluti bæjarstjórnar Voga  hefur gert málið að umfjöllunarefni á bæjarstjórnarfundi og á vef Víkurfrétta. Á bæjarstjórnarfundinum var málið tengt framgöngu þingmanna VG og þingframboði mínu og að öllum líkindum er markmiðið með því að gera mig ótrúverðuga í hugum kjósenda. Ég hef því ákveðið að skýra opinberlega frá minni hlið á málinu.

Að kvöldi þess dags sem viðtalið var sent út hringdi oddviti minnihlutans í mig. Hann taldi að málið hefði skaðað trúverðugleika bæjarfulltrúa,  því margir litu svo á að bæjarfulltrúar hefðu persónulega hagnast á samskiptum sveitarfélagsins við Landsnet. Hann krafðist þess að ég bæðist afsökunar og kæmi því á framfæri með skýrum hætti að ég teldi ekki að bæjarfulltrúar hefðu persónulega hagnast á mótvægisaðgerðunum. Daginn eftir varð ég við þeirri kröfu, sendi frá mér afsökunarbeiðni og taldi að þar með væri málið úr sögunni.

Skömmu síðar kemur fram í opnu bréfi til mín frá fulltrúum minnihlutans á vef Víkurfrétta að afsökunarbeiðnin væri ekki fullnægjandi. Í bréfinu er vísað í tölvupóst milli sveitarfélagsins og Landsnets sem staðfesti að Landsnet hafi fallist á að greiða reiðstíga í sveitarfélaginu. Í bréfinu er fullyrt að ég hafi vitað af því samkomulagi. Það er alls kostar rangt. Ég þráspurði á síðasta kjörtímabili hvort aukagreiðslur hefðu verið boðnar vegna línanna en því var alltaf neitað. Um tölvupóstsamskipti við Landsnet í september 2011 vissi ég ekki. Ég heyrði fyrst af greiðslunum í október 2011 þegar stefnubreyting í línumálinu var kynnt og þá var mér sagt að greiðslan fyrir reiðstíginn yrði ekki í boði ef raflínur yrðu lagðar í jörð. Á árinu 2012 fékk ég upplýsingar um tölvupóstinn frá núverandi bæjarstjóra og tölvupósturinn var síðan umræðuefni á fundi meirihlutans í nóvember. Á þeim fundi gerði ég samstarfsmönnum mínum ljóst að ég hefði ekki tekið þátt í neinum umræðum um mótvægisaðgerðir Landsnets, hefði ekki samþykkt greiðslurnar og myndi ekki samþykkja neinar greiðslur sem ekki væri hægt að ganga frá með formlegum hætti.

Ég hef, allt frá því ég hóf afskipti af stjórnmálum árið 2006, lagt áherslu á að koma heiðarlega fram og hafa allar staðreyndir mála uppi á borðinu. Ég veit að með því að draga fram allar hliðar mála er oft erfiðara að átta sig á þeim. Þá er líka auðveldara að gera mál tortryggileg og draga athyglina frá kjarna þeirra. Þess vegna hef ég alltaf - og mun alltaf vera tilbúin að skýra mitt sjónarmið og hvers vegna ég kýs að halda því fram. Ég trúi því að þannig megi efla traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Það traust er okkur öllum nauðsynlegt.

18.12.12

Spurningar frá Reykjanesinu (bitist 16.des)


1.Vilt þú að álver rísi í Helguvík?, hvað telur þú að þú getir best gert til að það verði – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Ef álver í Helguvík þýðir brunaútsala á orku, undanþágur varðandi brennisteinsmengun, tvöfalda röð af 30 m háum stálmöstrum og virkjanir í Eldvörpum og Krísuvík - þá segi ég nei.

2.Vilt þú að raflínur verði lagðar í lofti til Suðurnesja? Hvað telur þú að þú getir best gert til að það verði – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Ég bind vonir við að hópur sem Alþingi skipaði á sínum tíma skili hugmyndum um stefnu í raforkuflutningsmálum sem víðtæk sátt gæti náðst um. Við slíka sátt mun ég una.

3.Vilt þú að Kísilver rísi í Helguvík? Hvað telur þú að þú getir best gert til að það verði – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Ég vil Kísilver í Helguvík - en ég get ekki stutt kröfur bandarískra fjárfesta um frekari afslátt frá orkuverði. Ég bind miklar vonir við sameiginlega markaðssetningu Suðurnesjanna í gegnum atvinnuþróunarfélagið Hekluna og vonandi opnar það leið fyrir fjárfesta sem ekki eru eingöngu að koma til landsins til að fá ódýra orku og ódýrt vinnuafl.

4.Vilt þú að samkeppnisumhverfi gagnavera verði styrkt hér á landi? Hvað telur þú að þú getir best gert til að þín skoðun verði ofan á – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Samkeppnisumhverfi gagnavera er fyllilega sambærilegt við það sem best gerist í Evrópu nú þegar og það getur verið ágætur kostur að gagnaveraiðnaður þróist hér í bland við önnur lítil og meðalstór iðnfyrirtæki sem greiða sanngjarnt verð fyrir orkuna, eru arðbær og skapa störf. En sérstaklega vil ég styrkja samkeppnisumhverfi matvælaframleiðenda.Ég vil að á Suðurnesjum byggist upp matvælastóriðja og við verðum þekkt um allan heim fyrir mikið úrval af fjölbreyttum fullunnum matvælum.

5.Vilt þú að niðurstöður matshóps um virkjanakosti verði samþykktar? Hvað telur þú að þú getir best gert til að þín skoðun verði ofan á – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Nei ég hef talað fyrir því að fleiri staðir á Reykjanesi verði settir í verndarflokk - eða allavega biðflokk á meðan frekari rannsóknagagna er aflað. Ég vil flýta grunnrannsóknum á svæðinu - við verðum að fá að vita meira, getum ekki tekið þá áhættu að orkan á svæðinu klárist innan nokkurra áratuga.

6.Vilt þú að næsta ár verði tekjuskattsfrítt ár fyrir almenning svo menn geti greitt af húsnæðislánum? Hvað telur þú að þú getir best gert til að þín skoðun verði ofan á – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Nei – Ríkið hefur ekki efni á því að afsala sér einum stærsta tekjustofni sínum í heilt ár. Slíkt tal er óábyrgt og ekkert nema ávísun á hallarekstur eða meiri niðurskurð. Ég vil samtal við almenning sem leiðir til víðtækrar sáttar um hærri laun og raunverulega betri kjör.

7.Hvernig vilt þú koma til móts við erfiða stöðu heimila í kjölfar bankahrunsins?
Ég styð ekki flata niðurfellingu skulda. Ég vil vinna að nýjum samfélagssáttmála með aðkomu ríki og sveitarfélaga, verkalýðsfélaga, lífeyrissjóða og samtaka atvinnulífsins.

Ég vil að inntak sáttmálans verði:

1. Laun verða hækkuð, vinnuvikan stytt og framleiðni á vinnustund verði aukin (framleiðni á vinnustund á Íslandi er nú mun lægri en í nágrannalöndum). Forgangsverkefni er að 40 stunda vinnuvika dugi til eðlilegrar framfærslu
2. Peningamarkaður. Okurlán til almennings afnumin og vísitala lána verði tengd launaþróun. Finna þarf leiðir til þess að háir vextir þyngi ekki um of fyrstu greiðslur af lánum.
3. Endurskoða bótakerfið, auka virkni bótaþega og tengja greiðslur almannatrygginga við eðlilega framfærslu. Styðja sérstaklega við barnafjölskyldur með hækkuðum barnabótum og gjaldfrjálsum leikskóla. Tryggja skilvirka lágmarks heilsugæslu um allt land, afnema komugjöld á heilsugæsluna og skilgreina almennar tannviðgerðir aldraðra, öryrkja, barna og unglinga sem hluta gjaldfrjálsrar lámarks heilsugæslu.
4. Húsnæðismál. Sameiginlegt átak í húsnæðismálum (ríki, sveitarfélög, lífeyrissjóði og verkalýðsfélög) þar sem markmiðið er að stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað þannig að almennt launafólk geti fengið þak yfir höfuðið án þess að þurfa að fórn bæði heilsu og afkomumöguleikum til langs tíma. Vaxtabætur og húsaleigubætur verði endurskoðaðar þannig að húsnæðiskostnaður verði svipað hlutfall ráðstöfunartekna og í nágrannalöndum.

8.Vilt þú að Kvótafrumvarp ríkisstjórnarinnar verði samþykkt? Hvað telur þú að þú getir best gert til að þín skoðun verði ofan á – skýr dæmi um hvað þú getur gert!
Ég hefði viljað sjá fastar tekið á framsali veiðiheimilda í frumvarpinu sem kom fram sl. vetur. Það þarf að ná sátt um þessi mál á þeim grunni að sjávarauðlindin er sameign þjóðarinnar og enginn afsláttur veittur af því. Þá er líka eðlilegt að þjóðin fái eðlilegt og sanngjarnt afgjald eins og búið er að lögfesta með sérstaka veiðigjaldinu.

6.12.12

Barátta og hugsjónir

(Með Anrdísi Soffíu Sigurðardóttur - Birtist í Dagskránni á Suðurlandi í desember)

Framboðslisti VG í Suðurkjördæmi var samþykktur á fundi kjördæmaráðs nýlega. Í heiðurssæti listans situr Guðrún Jónsdóttir, félagsráðgjafi.  Á fundinum brýndi Guðrún fyrir frambjóðendum að baráttunni fyrir  kvenfrelsi og gegn kynbundnu ofbeldi væri hvergi nærri lokið. Í stefnulýsingu listans er m.a. lögð áhersla á félagslegt réttlæti, kvenfrelsi og baráttu gegn spillingu. Í öllum þessum málum getum við litið til ævistarfs Guðrúnar Jónsdóttur og þannig dýpkað skilning okkar á þeirri heimssýn sem stefna VG byggir á.

Fyrst eftir nám starfaði Guðrún með fátækasta fólkinu í Reykjavík. Hún var hluti af kerfi sem bar með sér það viðhorf að fátækt væri eðlilegt hlutskipti ákveðins hluta af samfélaginu. Að sjálfsagt væri að fordæma þá sem hallast stóðu og að ekki væri sjálfsagt að allir hlytu lagalega vernd í samfélaginu. Í þessum aðstæðum vann Guðrún mikið frumkvöðlastarf við að berjast fyrir því að fátækt fólk fengi þá mannvirðingu sem því bar, bæta réttarstöðu þess og lágmarks mannréttindi.

Guðrún Jónsdóttir er flestum kunnug fyrir óþreytandi baráttu fyrir kvenfrelsi og réttindum kvenna. Sú barátta er ekki sprottin úr tómarúmi heldur úr því umhverfi þegar kosningaréttur, menntun  og réttur til embætta í íslenskri stjórnsýslu voru ekki hluti af veruleika íslenskra kvenna. Guðrún er einn af frumkvöðlum Samtaka um kvennaframboð og tók þátt í að stofna Stígamót árið 1989, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Það segir sig sjálft að slík baráttukona og frumkvöðull rekur sig víða á veggi í samfélagi þar sem fastmótaðar reglur og hefðir tryggja völd og áhrif ákveðinna hópa. Í starfi með fórnarlömbum fátæktar og ofbeldis hefur Guðrún líka án vafa þurft að þola tortryggni og fordæmingu fyrir að vera hluti af því kerfi sem hún alla tíð reyndi að breyta. Í flestu sem hún hefur tekið sér fyrir hendur hefur hún mótað ný vinnubrögð, rutt brautina og boðið stöðnuðum hugmyndum birginn. Slíkt hlutskipti er aldrei sjálfvalið heldur krefst mikilla fórna og tryggð við sterkar hugsjónir og fjarlæga framtíðarsýn.

Hugsjóna- og baráttukonur eins og Guðrún Jónsdóttir mótast ekki í tómarúmi heldur á langri göngu í samfélagi þar sem óréttur og mannfyrirlitning eru meira metin en réttlæti og virðing. Guðrún lætur sér ekki nægja að tala og taka þátt í pólitík - hún hættir ekki fyrr en hún sér breytingar, kemur á fót nýjum venjum, betri stofnunum og mannlegra lagaumhverfi.

Það er von okkar að við hin sem skipum lista VG í Suðurkjördæmi getum horft til Guðrúnar og í það minnsta reynt að endurspegla þau gildi sem spor hennar í íslensku samfélagi hafa markað.


26.11.12

Kæra Landsnet

(Birtist á Smugunni í nóvember 2012)


Undanfarin sjö ár hef ég verið í samskiptum við ykkur. Í gegnum þau samskipti hefur vegsemd ykkar ekki aukist í mínum huga. Líklega er það gagnkvæmt enda hafið þið um margt annað að hugsa en að glíma við tilfinningasemi og fáfræði. Um flutningskerfi raforku í gegnum Sveitarfélagið Voga deilum við enn og þið eruð ennþá fullir sjálfstrausts, sannfærðir um að þið munið fá ykkar fram. Gott og vel.

En hafið þið hugsað um áætlanir ykkar út frá öðrum en ykkar lögfræðilegu og verkfræðilegu sjónarhornum? Hafið þið hugsað um afleiðingar þess að kerfisáætlun ykkar nái fram að ganga? Hafið þið hugsað um hvernig 30 metra há stálmöstur hringinn í kringum landið mun breyta ásýnd þess?  Hvernig stálmöstrin fara með ásýnd Breiðamerkursands og sýnina til Vatnajökuls, Jökuldal, Mývatnsöræfi, Öxnadal, Héraðsvötnin, Víðidalinn, Húnavatnssýslurnar og Skarðsheiðina? Á ferð ykkar hringinn í kringum landið gerið þið áætlanir um risavaxin háspennumöstur og það tæki langan tíma að telja upp allar þær perlur Íslands sem möstrin ykkar vilja faðma.

Með þessum áformum reisið þið minnisvarða þeirri stefnu sem mótuð var árið 1995 þegar formleg brunaútsala hófst á orkulindum Íslands. Sú stefna birtist hvað skýrast í bæklingi Markaðsskrifstofu Iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar sem bar heitið LOWEST ENEGY PRICES! Með háspennumöstrum ykkar hringinn í kringum landið rammið þið inn stefnuna og reisið Íslendingum í öllum landshlutum minnisvarða um skammsýna pólitíkusa, taumlausa gróðahyggju og fyrirlitningu á þeim taugum sem Íslendingar bera til landsins.

Þið eruð væntanlega stoltir, það skiptir svo miklu máli að þurfa ekki að snúa til baka, þurfa ekki að endurskoða áætlanir eða koma til móts við vilja almennra borgara, landeigenda og fávísra sveitarstjórnamanna. Ef hægt er að ryðjast yfir sem flesta, þá telst það fullnaðarsigur.

Með kærri þökk fyrir sýna mér hvernig manneskja ég vil ekki vera.

Inga Sigrún Atladóttir,
forseti bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Vogum.

18.11.12

Ræðum um staðreyndir


(Birtist í Fréttablaðinu 16. nóvember)

Hluti af umræðu um jarðstrengi og loftlínur hefur snúist um hve mikið dýrara það sé að leggja jarðstreng en loftlínu. Skellt hefur verið fram fullyrðingum um að jarðstrengur sé tvisvar til þrisvar sinnum dýrari eða sex sinnum dýrari eða jafnvel níu sinnum dýrari en loftlína. Því miður hafa deilur milli sveitarfélagsins Voga og Landsnets um lagningu Suðurnesjalínu 2 ekki komist á hærra stig en þetta því ekkert mat hefur farið fram á hagkvæmni framkvæmdarinnar.

Til að nálgast kostnaðartölur er hægt að skoða arðsemismat sem Landsnet lét gera árið 2009 á 132 kV jarðstreng milli Nesjavalla og Geitháls, en það arðsemismat er að finna á síðunni www.öxnadalur.is. Í umræddri greinargerð Landsnets kemur fram að þjóðhagsleg hagkvæmni Nesjavallastrengsins er mjög mikil en hagkvæmni Landsnets nálægt núlli. Þjóðhagslega hagkvæmni þarf að meta samkvæmt raforkulögum en það hefur ekki verið gert með Suðurnesjalínu 2. 

Opinberar arðsemisupplýsingar Nesjavallastrengs eru einnig birtar á vef Landsnets. Þar kemur fram að kostnaður á kílómetra á Nesjavallastreng var þá talinn u.þ.b. 54 milljónir og er það langt fyrir neðan áætlaðan kostnað (áætlunin var þó gerð fyrir hrun íslensku krónunnar). Á sama tíma er talað um yfir 60 milljónir á km. fyrir loftlínu á 220 kV spennu. Í þessum útreikningum er fjallað um beinan stofnkostnað en Landsnet hefur ekki verið til viðræðu um líftímakostnað sem tekur með í reikninginn bæði tap og viðhald. Ef reiknaður er líftímakostnaður er hlutfallið enn þá hagstæðara, jarðstreng í hag.

Lögum samkvæmt ber Landsneti að byggja upp flutningskerfi raforku á sem hagkvæmastan hátt og hafa allar tillögur fyrirtækisins á Reykjanesi miðast við það. Landsnet hefur ekki sýnt fram á kostnað með rökstuddum gögnum en á vefsíðu þeirra má finna fullyrðingar um að viðbótarkostnaður við að grafa fyrirhugaða Suðurnesjalínu 2 í jörð í landi sveitarfélagsins Voga yrði um 6 milljarðar króna (17,25 km) en komi til fyrirhugaðar tvöföldunar yrði kostnaðurinn 12 milljarðar króna (http://www.sudvesturlinur.is/is/frettir/248-yfirlysing-fra-landsneti.html). Þessar upplýsingar Landsnets eru ekki í neinu samræmi við erlendar skýrslur og rannsóknir sem m.a. er að finna í heimildaskrá jarðstrengjanefndar Atvinnu- og auðlindaráðuneytisins.

Landsnet hefur ekki sýnt fram á neinar raunhæfar kostnaðartölur vegna Suðurnesjalínu 2 og í umræðunni komast Landsnetsmenn upp með að slá fram hlutfallstölum sem ekki eru í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Nú árið 2012 komast þeir upp með áróður og afarkosti gagnvart sveitarstjórn og leyfa sér að leggja hvorki fram gögn um þjóðhagslega hagkvæmni né raunverulegan stofnkostnað leiðarinnar.

Hver á að bera byrðar samfélagsins?


(Birtist á Smugunni 10. nóvember)

Ég ólst upp í sjávarplássi úti á landi þar sem samhjálp og samstaða voru lifandi gildi í samfélaginu. Foreldrar mínir unnu bæði í fiski og vinir þeirra og foreldrar vina minna unnu við svipuð eða afleidd störf. Þeir sem stjórnuðu í bænum áttu fiskvinnslufyrirtækið, togarana, vélaverkstæðið, bræðsluna og flest allt annað. Við höfðum ekki miklar áhyggjur af því hver ætti hvað, því foreldrar mínir og vinir þeirra trúðu því að valdhafarnir og fólkið hefðu sömu hagsmuna að gæta.

Þegar ég var komin á unglingsár hafði sitthvað breyst. Erfingi þeirra sem „áttu plássið“ flutti burt úr bænum með kvótapeninga, fiskvinnslunni var lokað og bátarnir seldir. Allt í einu var almenningur í bænum farinn að berjast í bökkum en þeir sem valdið höfðu voru skyndilega orðnir margfaldir milljónamæringar. Allt í einu var öllum ljóst að við höfðum aldrei verið á sama báti.

Í plássinu átti flestir erfitt með að trúa því að gæslumenn almannahagsmuna létu það viðgangast að lífi almennra borgara væri umturnað með þessum hætti. Margir spurðu sig hvort ekki væri eitthvað verulega mikið að í samfélagi þar lögin vernda stóreignamenn umfram hagsmuni almennings.
Vinstri Hreyfingin grænt framboð stendur fyrir róttækum breytingum á íslensku samfélagi. VG vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag með sameiginlega ábyrgð að leiðarljósi. Til að þær breytingar nái fram að ganga þurfum við að beina hugsuninni frá einstaklingsfrelsi sem byggir á samkeppni, að frelsi einstaklinga sem sýna samfélagslega ábyrgð og trúa því að það sem er best fyrir samfélagið í heild sé, þegar upp er staðið, best fyrir einstaklingana.

Þegar ég var barn var mér kennt að samstaða, samábyrgð og samhjálp væri eðlilegur hluti af íslensku samfélagi. Ég hef starfað í pólitík í sex ár og er enn sannfærð um að þessi gildi séu þau réttu. En það er ekki nóg að þau séu gildi almennings heldur þurfa þau að móta afstöðu þeirra sem fara með völd í samfélaginu. Með réttlátum leikreglum, heiðarlegum umræðum og skýrri sýn getum við fengið Íslendinga til að trúa því að hægt sé að byggja upp velferðarsamfélag þar sem sömu reglur gilda fyrir alla.