30.3.15

Brjóst og rassar

Nú er að ljúka vel heppnuðu átaki Mottumars þar sem karlar réðust gegn fordómum gegn ristilkrabba með því að sýna myndband þar sem rassinum er dillað fram og til baka. Áherslan var að sýna að undir gamansömu yfirborði er alvarlegur boðskapur sem allir einstaklingar í siðuðu samfélagi ættu að taka undir.

Nýlega hófu nokkrar stúlkur átakið frelsum geirvörturnar og var það líkt og mottumars, átak sem hafði á sér glettileg yfirbragð en átti að vekja athygli á grafalvarlegum boðskap. Boðskap þar sem ráðist er gegn því að kvenfólk sé hlutgert og aðeins sé hugsað um stúlkur sem kynferðileg viðföng en ekki konur af holdi og blóði sem líkt og strákarnir í mottumars geta átt sér líf þar sem tekist er á við alvarleg og jafnvel lífshættuleg vandamál.

Einhverjir studdu átakið og eyddu orðum í að styðja ungu stúlkurnar. En andstætt við mottumars þar sem sýndur er almennur stuðningur ruku fram á ritvöllinn fjöldinn allur af fulltrúm feðrasamfélagins sem ekki geta hugsað sér að ungar stúlkur krefjist þess að eiga líkama sinn sjálfar. Í átakinu mottumars eru harðfullorðnir karlmenn að berjast fyrir góðu málefni en í þessu tilviki ungar stúlkur sem ekki hafa allar það sjálfstraust sem þarf til að standa á móti ómálefnlegri og sóðalegri umfjöllun um átakið.

Mér finnst átakið virkilega gott, ekki nema fyrir það eitt að það er í fysta skipti í langan tíma sem ungt fólk gerir tilraun til að rífa sig út úr þeirri staðalmynd sem klámvæðingin leggur þeim til. Fjöldi drengja í landinu studdi líka átakið, ekki hafa birst myndir af þeim á þessum degi – í staðinn birtist mjög stöðluð mynd af átakinu og virðist sem fjölmiðlar reyna sem mest þeir mega að snúa því upp í mat á brjóstastærð, beina ahyglinni að sjálfsmynd þeirra sem ekki tóku þátt, setja myndirnar í samhengi við hefndarklám eða gera á einhvern annan hátt lítið úr þeim sem létu málið til sín taka.


Sanngjarnt samfélag

Til að skapa sanngjarn samfélag er ekki nóg að hafa jöfnuð, það verður líka að taka tillit til þess að fólk er ólíkt og leikur ólík hlutverk.
Sanngjarnt samfélag hefur pláss fyrir ólíka einstaklinga og gerir kröfu um að fólk sem ekki fellur að hugmyndum annarra fái svigrúm til að vera öðruvísi. Það er áhætta og óvissa sem allir verða að læra að búa við í samfélagi 21. aldarinnar. Í því samfélagi er ekki hægt að byggja samskipti á fordómum og steríótýpum heldur verður að sýna traust og ætlast til þess að öðru fólki sé treystandi.
Við þurfum að byggja upp samfélag þar sem allir hafa hlutverk og finna tilgang í því sem þeir eru að gera. Það á ekki að skipta máli hvað fólk hefur fram að færa, samfélagið á að vera fyrir alla og ákvarðanir sem teknar í því verða að taka tillit til þess.
Sjálfsákvörðun sem lýðræðið byggir á þarf að hugsa út frá aðstæðum fólks. Í raun er ekki hægt að tala um lýðræði í alvöru nema búið sé að tryggja efnahagslegan jöfnuð og jafnræði. Stéttarskipting er í eðli sínu mótsögn í lýðræðislegu samhengi. Misskipting auðs og valda myndar í sjálfu sér lýðræðishalla. Þeir sem ekki ná fjárhagslega endum saman eða þeir sem á einhvern annan hátt hafa lent undir í samfélaginu hafa ekki sömu möguleika á að mynda sér óháða skoðun.
Arðránskerfi gengur ekki upp með lýðræði. Arðrænt samfélag er ekki sanngjarnt.

2.3.15

Einelti í skólum

Undanfarin ár hefur umræðan um einelti í íslenskum skólum verið talsverð.  Umræðan er mikilvægt en þó er ennþá mikilvægara að kafa djúpt í vandamálið og horfast í augu við hvað raunverulega veldur því að ekki tekst betur að ráða við einelti en raun ber vitni.
Í þeim kenningum sem mest eru notaðar til að vinna gegn einelti á Íslandi er lögð áhersla á að móta menningu í skólum þannig að ekki sé flott að nýðast á öðrum og sá sem það gerir sé litinn hornauga. Þessi félagsmótun þarf að ná um allan skólann, bæði til nemenda og starfsfólks.
Skólastjórar eru í lykilstöðu til að móta skólamenningu þannig að einelti líðst ekki. Í menningunni felst lykillinn í vinnunni. Ef í skólanum ríkir menning þar sem starfsfólki leyfist að mismuna börnum þrífst einelti. Þá er alveg sama hvað gert er, einelti kemur alltaf aftur.
Nú er auðvelt að gera ráð fyrir því að kennarar séu yfir það hafnir að mismuna börnum. En hvers vegna eigum við að gera ráð fyrir að það sé óvenjulegt þegar alls staðar í samfélaginu er til staðar menning þar sem frumskógarlögmálið ríkir.
Það er engum sem náttúrulega líkar vel við alla – það er þjálfun að láta sér líka vel við allt fólk. Það þarf sjálfsaga og innrætingu til að bera virðingu fyrir skoðunum sem er ólík okkar eigin. Stundum þarf kennari virkilega að beita sig hörðu til að láta sér þykja vænt um börn sem alla daga gera starfið mun erfiðara en það þyrfti að vera. Undir miklu álagi getur verið auðvelt að kenna barninu um og láta ógætileg orð falla.
Kennarar eru upp til hópa gott fólk, eins og fólk almennt. En það þarf sterkan ramma í skóla til að sterkir einstaklingar sem ekki er starfi sínu vaxnir eyðileggi ekki andrúmsloftið í skólanum.
Starfsfólk skóla þarf að vera skjöldur og hlíf fyrir alla nemendur, líka grenjuskjóðurnar, klöguskjóðurnar, athyglissjúka einstaklinginn, þann ofvirka, þann ofurviðkvæma, töffarann, eineltarann og fórnarlambið. Það er ekki auðvelt og sumum finnst það alls ekki sjálfsagt viðhorf.
Í öllum starfsstéttum er fólk sem hefur þörf fyrir að sýna vald sitt með því að nýðast á öðrum. Það hættir ekki fyrr en kerfið er nógu sterkt til að stoppa þá hegðun, endanlega.

8.1.15

Opinber neysluviðmið

Á vef stjórnarráðsins er reiknivel þar sem hægt er að reikna út hvað þarf að hafa há laun til að lifa á Íslandi. Kostnaðurinn er fyrir utan húsnæðiskostnað.
Mjög fáir sem ég hef talað við ná þessum „eðlilegu“viðmiðunum.
Ef stjórnmál á Íslandi snérust um bætt lífsgæði fólksins í landinu væri það áhersla allra stjórnmálaflokka að gera lágmarkslaun á Íslandi þannig að þau nái opinberum framfærsluviðmiðunum.
Hvernig skapaðist þjóðarsáttin á Íslandi að stór hluti almennings geti ekki lifað af laununum sínum?

19.12.14

Lífsskoðanir í fjölmenningarsamfélagi

Síðustu daga hefur umræðan um trúarbrögð og skóla verið frjó – og er það gott og mikilvægt.
Einn þráður í umræðunni er hlutverk trúar í fjölmenningarsamfélagi. Þar hafa hugtökin fjölmenningarsamfélag og lífsskoðun verið áberandi. Hugtakið lífsskoðun nær yfir hvers kyns trúarbrögð og stefnur. Lífsskoðun er eitthvað sem allir menn búa að, það er afstaða sem mótar starf þeirra. Lífsskoðun getur stjórnast af trú á vald markaðarins eða mátt peninga, trúa á skynsemi mannsins og getu hans, fylgni við hugmyndir Jesús, Buddha eða Allah
– eða sambland af þessu öllu.
Í viðtali á Bylgjunni fyrr í vikunni tókust á tvö andstæð sjónarhorn. Annars vegar sú skoðun að kristni sé hin eina rétta lífsafstaða og því yrði að finna henni stað í skólum og hins vegar sú afstaða að lítil þörf væri fyrir trúarbrögð í fjölmenningarsamfélagi (í það minnsta í skólum).
Í bókinni The Puppet and the Dwarf: The Perverse Core of Christianity  fjallar slóvneski heimspekingurinn og kommúnistinn Slavoj Žižek um hlutverk trúarbragða (einkum kristninnar) í nútímasamfélagi. Hann gagnrýnir hvernig litið er á hlutverk trúar í lífi vesturlandabúa og dregur  fram tvö sjónarmið sem hann telur vera ríkjandi í umræðu á vesturlöndum. Annars vegar er kristin lífsafstaða notuð til að gagnrýna fjölmenningu, rökstyðja einsleitni samfélaga og sýna fram á yfirburði kristni og hins vegar sjónarmið sem lítur á trú sem persónulegt einkamál og þeir sem eru kristnir þurfi á trúnni að halda sem sjálfshjálparaðferð eftir að hafa farið út af sporinu í lífinu.
Bæði þessi sjónarmið gagnrýnir Žižek og telur þau leiði okkur aftur á bak í umræðunni.
Að dómi Žižek þurfa allir menn að hafa vel grundvallaða lífsskoðun. Lífsskoðun er eitthvað sem þróast alla ævi, frá frumbernsku til fullorðinsára. Í samfélagi eru einstaklingar sífellt að byggja við og breyta hugmyndum sínum og móta hegðun sína og afstöðu með tilliti til þess sem gerist í umhverfinu. Lífsafstaða fólks mótar síðan aftur umhverfið –  sem aftur breytir hugmyndum fólks og framkomu.
Žižek telur að til þess að geta verið gagnrýninn á samfélag sitt og tekið ákvarðanir við erfiðar aðstæður sé nauðsynlegt að hafa skýra lífsskoðun. Ólík hugmyndafræði nýtist best þeim sem hafa þroskaða lífsskoðun og til að þroska lífsskoðun sína þurfa einstaklinga að fá tækifæri til að ígrunda eigin afstöðu og bera hana saman við afstöðu annarra.
Því er nauðsynlegt að búa við fjölbreyttar lífsskoðanir sem fá rúm í samfélaginu til að takast á. Það þarf að gefa ólíkum skoðunum tækifæri til að dýpka sjónarhorn fólks, víkka sjóndeildarhring þess og skapa nýja þekkingu. Að gersneiða hluta mannlegs samfélags lífsskoðunum er ómögulegt því ekki er hægt að skilja á milli  einstaklinga og lífsskoðanna þeirra.
Tilraun til að hreinsa trúarbrögð úr stofnunum er því dæmd til að mistakast. Á sama hátt er tilraun til að leiða fólk í  allan sannleikann um hina einu sönnu trú ekkert annað en barátta við vindmyllur.
Upplýsingar um ólíka afstöðu fólks (hvort sem það eru lífsskoðunarfélög eða önnur félög), ólíkar stefnur, lífsskoðanir og afleiðingar þeirra er þekkingarbrunnur sem mikilvægt er að kynna fyrir fólki, hvort sem það eru börn eða fullorðnir.
Íslenska skólakerfið á að keppast við að ala upp einstaklinga sem hafa styrk til að velja og hafna, þekkja hvað þeir vilja og hafa getu til að finna sína eigin afstöðu til álitamála. Ef við tökum úr skólanum fjölbreytt tilefni til umræðu um trúarleg álitamál og ólíkar lífsskoðanir verða tækifærin sem börnunum er gefin til að glíma við eigin lífsskoðun mun færri.

25.10.14

Samræmd próf eru góð mælitæki

Mér þykir afskaplega vænt um íslenskt skólakerfi. Það er margt gott og þar er líka margt sem má bæta. Ég ber umhyggju fyrir íslenskum nemendum, ég tel að lang lang flestir kennarar vinni mikið og óeigingjarnt starf og ég hef aldrei hitt foreldra sem ekki vilja barninu sínu allt það besta.
En ég er fylgjandi fjölbreyttu námsmati og í því samhengi er ég hrifin af samræmdum prófum. Mér finnst mikilvægt að eitthvað tæki sé til sem ber nemendur saman við jafnaldra sína sem stunda nám í öðrum skólum. Samræmd próf gefa foreldrum, skólum og nemendum sjálfum tækifæri til að sjá hvar þeir standa miðað við jafnaldra sína. Einmitt þá jafnaldra sem þeir eiga eftir að vera með í menntaskóla, háskóla og síðar á vinnumarkaði.
Auðvitað má gagnrýna samræmd próf. Þau er líka hægt að taka of hátíðlega eða líta á þau sem of léttvæg tæki. Það er hægt að gagnrýna spurningarnar, fyrirlögnina og hvernig niðurstöður eru notaðar. En sú gagnrýni yfirskyggir að mínu mati ekki að það námsefnið sem boðið er upp á í samræmdum prófum er margt býsna gott, margt er vel unnið og í samræmi við það sem viðurkenndast er í kennslufræði nútímans. Samræmd próf eru mikilvægur mælikvarði á það sem þau prófa og nauðsynlegt aðhald fyrir skóla.
Samræmd próf eru kanski ekki að prófa skapandi skrif og gagnrýna hugsun í þeim mæli sem við vildum helst en þau er líka aðeins lítið brot af þeim gögnum sem við notum til að meta frammistöðu barna í grunnskólum.

23.10.14

Sjálftökumenn Íslands

Á dögunum flutti Sigrún Davíðsdóttir pistil um afnám gjaldeyrishafta. Sigrún taldi eins og mjög margir aðrir nauðsynlegt fyrir íslenskt hagkerfi að gjaldeyrishöftum yrði aflétt.
Í pistlinum var vitnað í Hilmar Veigar Pétursson sem taldi að stíga þyrfti á ýmsar tær til að aflétta gjaldeyrishöftunum. Ástæðan væri sú að  ýmsir hefðu hreiðrað um sig í höftunum og hefðu það gott þar. Sigrún tekur að undir orð Hilmars og telur að býsna mörg dæmi séu um meint gjaldeyrissvindl sem eitra út frá sér.
Þetta virðist vera gömul saga og ný í hagstjórn á Íslandi. Það virðist alltaf enda þannig að einhver hópur kemur sér vel fyrir í takmörkunum hálf lokaðs hagkerfis og tekur þannig að sér að handstýra því í sína þágu. Þannig tryggja þeir sem  „eiga Ísland“ hagsmuni sína, gæta þess að missa aldrei spón úr aski sínum en tryggja að almenningur á Íslandi þurfi alltaf að borga brúsann.
Lengi framan af öldinni bjuggu íslendingar við gjaldeyrishöft, lengur en nokkrar aðrar evrópskar þjóðir. Við afnám gjaldeyrishaftanna  var hagkerfinu handstýrt með gjaldeyrisbraski og gengisfellingum og þannig var tryggt að hægt væri að seilast reglulega í vasa almennings til að borga skuldir ýmissa íslenskra óreiðumanna.
Síðan var gengið sett á flot, í tilraun til að hverfa frá handstýringu gengisins og láta markaðinn ráða verðgildi krónunnar. Tilraunin fór ekki betur en svo að íslenskir sjálftökumenn fundu sér leið til að hafa áhrif á markaðinn með  fölskum hækkunum á eignum og hlutabréfum og ýmis konar gjaldeytisbraski.
Og nú eru höftin komin á ný. Blómleg viðskipti hafa myndast með gjaldeyri og margir fara ekki úr landi án þess að nýta sér misgengi krónunnar til að græða á því. Þar hefur enn á ný myndast arðvænlegur bisness fyrir þá sem vilja nýta sér gallað regluverk og handstýrt veikburða hagkerfi til að hagnast óeðlilega.
Þetta er saga íslenskrar hagstjórnar og þetta látum við bjóða okkur ár eftir ár og sættum okkar við lægri laun, hærri vexti og hærra vöruverð en nágrannaþjóðirnar.